Löggiltur skoðunarmaður ökurita
Bílaverkstæðið hefur nú fengið löggildingu fyrir skoðun á ökuritum. Sjá meðfylgjandi frétt úr Bæjarins Besta Ísafirði í dag.
Sér um raflestur ökurita
Bílaverkstæði SB á Ísafirði tekur nú að sér raflestur allra ökutækja með ökurita. „Með þessu viljum við efla þjónustu í heimabyggð en ég er nú orðinn löggiltur skoðunarmaður ökurita fyrir norðanverða Vestfirði,“ segir Guðmundur Haukur Sigurlaugsson hjá Bílaverkstæði SB sem er eina verkstæðið á Vestfjörðum þar boðið upp á þjónustu af þessu tagi. Ökuriti er búnaður í bifreið til flutninga á vegum sem sýnir, skráir og geymir upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns, hraða bifreiðar og fleira. Ökuritar eru löggiltir við skráningu og síðan skoðaðir á tveggja til sex ára fresti af löggiltum skoðunarverkstæðum. Páll Önundarson var fyrsti viðskiptavinur bílaverkstæðisins og segir hann að um frábært framtak sé að ræða.
„Við sem störfum við akstur flutningabíla stóðum frammi fyrir því að þurfa keyra til Reykjavíkur til að fá löggilda ökuritamælingu. Ég þykist nú vita það að partur af ástæðunni fyrir því að Laugi (Sigurlaugur Baldursson, eigandi Bílaverkstæðis SB, innskot blaðam.) ákvað að bjóða upp á þessa þjónustu er að hann er sjálfur bifreiðarstjóri og þekkir þetta.“
Páll hvetur starfsfélaga sína til að nýta sér þjónustuna. „Það eru nú ekki svo margir flutningabílar á svæðinu svo það er borðleggjandi að það er mikill fórnarkostnaður fólginn í þessu fyrir Lauga. Ég tek hattinn ofan fyrir þeim feðgum Lauga og Guðmundi Hauki og hvet alla þá á svæðinu sem eru komnir á tíma með að láta skoða ökuritana að skella sér til þeirra.“